Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur – Landvernd 50 ára


10-17

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur er samsýning Landverndar og Ólafs Sveinssonar í samstarfi við Norræna húsið og Framtíðarlandið.

Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Landverndar.
Sýningarstjóri er Ólafur Sveinsson.

Eldvörp / Ellert Grétarsson

Ísland er einstakt með sinni stórbrotnu og lítt snortnu náttúru með samspili jarðhita og jökla, gljúfra og gilja, stórra fjalla og fjölmargra vatnsfalla, víðáttumikilla auðna og viðkvæms gróðurs í óbyggðum víðernum sem eiga engan sinn líka. Það eru verðmæti sem ekki verða mæld í krónum og aurum, en verða þó sífellt meiri eftir því sem þau eru látin ósnortin lengur.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, er stór og fjölbreytt margmiðlunarsýning sem minnir á þau svæði sem þegar hafa glatast, með sérstakri áherslu á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Einnig vekur sýningin athygli á náttúruperlum sem að eru ýmist í nýtingar- eða biðflokki Rammaáætlunar og því í sigti orkufyrirtækja sem mögulegir virkjanakostir.

Hjarta sýningarinnar slær í aðalsal Norræna hússins þar sem sýnd eru þrjú myndbandsverk / kvikmyndir eftir Ólafs Sveinsson um öræfin kringum Snæfell, áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar norðaustan Vatnajökuls og eyðileggingu þess. Einnig verða til sýnis tveggja metra breiðar ljósmyndir af áhrifasvæði Kárahnjúkvirkjunar sem sýna stórbrotið landslag, gróskumikinn gróður og fjölbreytt dýralíf.

Auk þess verða tvær fimm mínútna myndir um hina umdeildu Hval- árvirkjun sem Vesturverk hyggst reisa í Ófeigsfirði á Ströndum.

Í Atrium Norræna hússins verða 20 áhrifamiklar ljósmyndir af stöðum sem eru í bið- og nýtingarflokkum Rammaáætlunar og verða hugsanlega eyðilagðir undir framleiðslu rafmagns fyrir erlenda stóriðju. Að auki verður stór snertiskjár í anddyrinu með Náttúrukorti Framtíðarlandsins sem veitir yfirsýn yfir þau svæði á Íslandi sem fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða nýta á annan hátt. Kortið hefur verið endurnýjað sérstaklega fyrir sýninguna og hefur mikið af nýjum og áhugaverðum upplýsingum ásamt ljósmyndum eftir suma af færustu náttúrljósmyndurum landsins. Á kortinu geta sýningargestir bæði leitað frekari upplýsinga um einstök svæði eða fengið gott yfirlit yfir virkjanaáform með fulltingi Náttúrukortsins.

Ljósmyndari Daníel Bergman

Í Barnabókasafni Norræna hússins er ljósmyndasýning fyrir yngri kynslóðina af villtum dýrum sem að lifa á Íslandi.  Myndirnar eru óvenju lifandi og skemmtilegar og prýða fugla og spendýr eins og ref, hreindýr og sel auk ferskvatnsfiska og skordýra. Þetta er fjölskyldusýning sem höfðar ekkert síður til fullorðinna en barna, þó uppsetningin taki mið af þörfum þeirra.

Sýningin Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur er styrkt af Umhverfisráðuneytinu, Ferðafélagi Íslands, Útivist, Skjámynd og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Sýningarstjóri er Ólafur Sveinsson.

Viðburðadagatal