Norræna húsið býður tólfta Sequences tvíæringnum velkomnum, Sequences XII: Pása!
Myndlistarhátíðin fer fram dagana 10.–20. október 2025 í Reykjavík. Hátíðin í ár leiðir saman fjölbreyttan hóp innlendra og erlendra listamanna og lagt er upp með að kanna hvað það þýðir að upplifa og skapa „hægt”.
Sýningarstjóri Sequences XII, Daría Sól Andrews býður gestum að stíga út úr amstri daglegs lífs og taka þátt í tíu daga dagskrá sem spannar sýningar, gjörninga, fyrirlestra, gönguferðir með leiðsögn og margt fleira. Hátíðin býður upp á rými til að staldra við, íhuga og upplifa list á öðrum hraða með aukinni dýpt, ró og meðvitund.
Listamenn og nákvæm dagskrá verða kynnt síðar.
Sequences – real time art festival er alþjóðlegur myndlistartvíæringur, sem haldinn er í Reykjavík. Að baki Sequences standa Kling & Bang, Nýlistasafnið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar auk fjölda listamanna.