Íslenskir og norskir þjóðdansar – Danslög Jónasar á Menningarnótt


11:00

Hvernig skemmti fólk sér á 19. öld?

Hvað dansaði það og hvernig hljómaði tónlistin?

Er eitthvað sameiginlegt með skemmtanamenningu 19. aldar og okkar tíma?

Í haust kemur bókin Danslög Jónasar út en hún inniheldur um 50 danslög fyrir fiðlu sem Jónas Helgason (1839-1903) skrifaði niður um 1864. Jónas var vinsæll dansundirleikari í Reykjavík á síðari helming 19. aldar og lék víða fyrir dansi ásamt bróður sínum, Helga Helgasyni, og öðru tónlistarfólki. Íslensk danstónlist frá 19. öld hefur lítið verið rannsökuð og því birtist hér „ný“ tónlist í íslenskri þjóðtónlistarflóru. Í handritinu má finna tónlistarform sem hafa lifað til dagsins í dag á borð við valsa og ræla en einnig tónlistarform sem hafa gleymst eins og hamborger, bömerdans, engelsk dans og fleira. Þessi útgáfa er mikilvægt skref í rannsóknum og miðlun íslenskra þjóðdansa og tónlistar. Hér gefst einstakt tækifæri að kynnast íslenskum tónmenningararfi sem hefur ekki heyrst í 160 ár. Samhliða bókinni koma öll lögin í handritinu flutt af Vegar Vårdal norskum þjóðlagatónlistarmanni og þjóðlagatónlistarmanni ársins í Noregi 2020, túlkuð út frá danshefðum og spilastíl íslenskra alþýðufiðluleikara frá 20. öld.

Í tilefni útgáfunnar verður verkefnið kynnt í Norræna húsinu á Menningarnótt. Þar munu listamenn frá Íslandi og Noregi koma saman og kynna verkefnið með tónlistarflutningi, dansi og fróðleik. Valin lög úr handritinu verða flutt ásamt dönsum. Gestum verður boðið upp í dans og í bland við tónlistina úr handriti Jónasar verður fjölbreyttara efni frá Noregi og Íslandi flutt. Vegar Vårda mun flytja valin lög úr íslenskum- og norskum þjóðdansatónlistararfi, Atli Freyr Hjaltason, þjóðfræðingur, mun leika lög úr íslenskum þjóðdansatónlistararfi á harmónikku og dansa við undirleik Vegar ásamt Elizabeth Katrínu Mason.

Viðburðurinn er öllum opinn óháð aldri og fyrri störfum. Hvort sem þú sért dans og tónlistarunnandi eða bara forvitinn. Komdu og kynntu þér Danslög Jónasar.

Kynningar fara ýmist fram á ensku, íslensku og kannski norsku. Viðburðurinn tekur um 30 mínútur.

Aðrir viðburðir