
Bókmenntahátíð í Reykjavík: Viðburðir í Norræna húsinu 25. apríl
Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík hefur starfað síðan árið 1985. Þessi huggulega hátíð er fundarstaður lesenda og höfunda og lifandi vettvangur umræðna um bókmenntir, skáldskap, þjóðfélagsleg málefni og ýmislegt fleira því bókmenntirnar snerta á mörgu og umfjöllunarefnin eru óteljandi. Ókeypis er inn á viðburði og þeir eru öllum opnir. Samtöl fara fram á ensku en upplestrar á móðurmáli höfunda
Sjá dagskrá hátíðarinnar í einu skjali með því að smella hér.
Viðburðir í Norræna húsinu eru eftirfarandi:
25. Apríl:
SAMTAL: ANNETTE BJERGFELDT OG EINAR LÖVDAH
kl: 12:00
Annette Bjergfeldt er dönsk söngkona, lagahöfundur, píanóleikari og rithöfundur sem hefur vakið mikla athygli fyrir líflegar og heillandi skáldsögur. Að auki er hún margverðlaunuð fyrir tónlist og hefur verið tilnefnd til Grammy-verðlauna. Bókin Ferðabíó herra Saitos var á lista Politiken yfir bestu bækur ársins þegar hún kom út.
Einar Lövdahl er rithöfundur og tónlistarmaður. Hann hefur gefið út sólóplötuna Tímar án ráða og plötuna Nætur með tvíeykinu LØV & LJÓN sem hann myndar ásamt Agli Jónssyni. Allir textar beggja verka voru eftir Einar og þá hefur hann einnig samið texta fyrir aðra flytjendur, s.s. Julian Civilian (Skúla Jónsson), Jóhönnu Guðrúnu, Jón Jónsson og GDRN. Skáldsaga hans Gegnumtrekkur kom út vorið 2024 og hefur þýðingarréttur verið seldur til Ungverjalands og Sviss.
Umræðum stjórnar Arnar Eggert Thorodssen.
SAMTAL VIÐ ERIKU FATLAND
kl: 13:00
Erika Fatland er norskur mannfræðingur sem nýtur mikilla vinsælda fyrir óskálduð verk sín. Hún hefur skrifað sjö bækur sem hafa hlotið fjölda verðlauna og verið þýddar á meira en tuttugu tungumál. Hún vakti fyrst athygli árið 2015 með bókinni Sovetistan, þar sem hún segir frá ferðum sínum um fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna sem bera endinguna -stan. Í bókinni Grensen frá árinu 2021 segir hún ferðum sínum umhverfis Rússland þar sem hún ferðaðist í gegnum öll lönd sem eiga landamæri að Rússlandi en í bókinni Høyt segir hún frá fólki og samfélögum Himalaya-fjalla. Nýjasta bók hennar Sjøfareren er ferðasaga frá þeim löndum sem áður tilheyrðu hinu fallna heimsveldi Portúgala. Erika Fatland er á meðal vinsælustu höfunda Noregs sem skrifa óskáldað efni.
Hér er Fatland í samtali við Halldór Guðmundsson.
SAMTAL: SATU RÄMÖ OG RAGNAR JÓNASSON
kl: 14:00
Finnski rithöfundurinn Satu Rämö hefur skapað sér gríðarlegar vinsældir á undanförnum árum sem glæpasagnahöfundur og hefur þýðingarrétturinn á seríu hennar um Hildi, sem gerist á Ísafirði, verið seld um heim allan. Nú standa yfir tökur á sjónvarpsþáttaröð sem byggir á bókunum. Bækurnar koma út á íslensku hjá Forlaginu í þýðingu Erlu E. Völudóttur.
Ragnar Jónasson er vinsæll glæpasagnahöfundur og hafa bækur hans komið út víða um heim þar sem þær hafa setið á metsölulistum beggja vegna Atlantsála. Þær gerast á Siglufirði og gerðir hafa verið sjónvarpsþættir upp úr þeim.
Lilja Sigurðardóttir stýrir umræðum.