Bókmenntahátíð í Reykjavík: Viðburðir í Norræna húsinu 24 apríl


Salur & Bókasafn
Aðgangur ókeypis

Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík hefur starfað síðan árið 1985. Þessi huggulega hátíð er fundarstaður lesenda og höfunda og lifandi vettvangur umræðna um bókmenntir, skáldskap, þjóðfélagsleg málefni og ýmislegt fleira því bókmenntirnar snerta á mörgu og umfjöllunarefnin eru óteljandi. Ókeypis er inn á viðburði og þeir eru öllum opnir. Samtöl fara fram á ensku en upplestrar á móðurmáli höfunda

Sjá dagskrá hátíðarinnar í einu skjali með því að smella hér. 

Viðburðir í Norræna húsinu eru eftirfarandi:

24. Apríl:

SAMTAL: ABDULRAZAK GURNAH OG KULUK HELM
kl: 11:00

Kuluk Helms er listakona sem stendur á mörkum tveggja menningarheima. Hún á grænlenska móður og danskan föður og býr og starfar í Danmörku. Hún er gjörningalistamaður, grímudansari, ljóðskáld, leikari og kennari sem hefur vakið athygli fyrir líflega og skemmtilega sviðsframkomu.

Abdulrazak Gurnah hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2021. Hann er höfundur tíu skáldsagna sem hafa verið tilnefndar til fjölmargra verðlauna. Gurnah er fæddur á Zanzibar í Tansaníu en býr í Bretlandi þar sem hann kennir enskar bókmenntir við Háskólann í Kent. Í íslensku hefur Helga Soffía Einarsdóttir þýtt Paradís og einnig er væntanleg í hennar þýðingu bókinar Malarhjarta. Angústúra gefur út.

Umræðum stýrir Þóra Arnórsdóttir.

SAMTAL: CLAIRE KEEGAN OG DINÇER GÜÇYETER
kl: 12:00

Claire Keegan er írskur rithöfundur sem hefur notið mikilla vinsælda um heim allan fyrir verk sín sem hafa verið þýdd á meira en 30 tungumál. Keegan er margverðlaunuð og var bókin Smámunir sem þessir meðal annars valin besta bók 21. aldar af blaðinu New York Times. Sú bók kom út í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur hjá Bjarti. Helga Soffía hefur einnig þýtt nóvelluna Fóstur (2023) og smásagnasafnið Seint og um síðir: sögur af konum og körlum (2025)

Dinçer Güçyeter er þýskt ljóðskáld og stofnandi Elif forlagsins sem sérhæfir sig í ljóðaútgáfu og er stærsti útgefandi íslenskra ljóða utan Íslands. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur og eina skáldsögu og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, meðal annars  bókmenntaverðlaun bókasýningarinnar í Leipzig. Bók hans, Prinsinn minn, ég er gettóið kemur út á íslensku hjá Tungl forlagi í þýðingu Gauta Kristmannssonar.

Umræðum stýrir Rosie Goldsmith. 

SAMTAL VIÐ PAJTIM STATOVCI
kl: 13:00

Pajtim Statovci er fæddur í Kosovo og er af albönskum uppruna. Sem barn flúði hann Júgóslavíustríðið og fjölskyldan settist að í Finnlandi. Pajtim er höfundur þriggja skáldsagna sem hafa farið sigurför um heiminn og er hver þeirra margverðlaunuð. 

Umræðum stýrir Rosie Goldsmith. 

SAMTAL VIÐ ANDEV WALDEN
kl: 14:00

Andrev Walden er sænskur blaðamaður sem býr í Stokkhólmi og starfar sem dálkahöfundur hjá Dagens Nyheter, einu fremsta dagblaði landsins. Hann sló í gegn í Svíþjóð með fyrstu skáldsögu sinni, Þessir djöfulsins karlar, sem kom út á íslensku hjá Benedikt bókaútgáfu í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Bókin hlaut helstu bókmenntaverðlaun Svía, August-verðlaunin, og vakti mikla athygli hér á landi og annars staðar. 

Hér ræðir Lóa Björk Björnsdóttir dagskrárgerðarmaður við Walden. 

SAMTAL VIÐ THOMAS KORSGAARD
kl: 15:00

Thomas Korsgaard er danskur rithöfundur sem sló í gegn einungis 21 árs gamall með bókinni Hvis der skulle komme et menneske forbi sem var fyrsta bók í þríleik sem er innblásinn af lífi höfundarins, erfiðum heimilisaðstæðum og uppvexti. Korsgaard var um tíma heimilislaus og bjó á götunni þegar hann skilaði af sér sínu fyrsta handriti. 

Hér er Thomas Korsgaard í samtali við Sune De Souza Schmidt-Hansen.

Aðgengi í Elissu sal er ágætt, það er lágur þröskuldur inn í salinn. Á sömu hæð er salerni með góðu aðgengi og skiptiaðstöðu.  Að Norræna húsinu liggur rampur og við aðaldyrnar er sjálfvirkur hnappur. Frekari spurningar um aðgengismál má senda til: kolbrun(at)nordichouse.is