
Samprjón með Satu Rämö og Lee Esselström
13.30
Fagnið Degi Norðurlanda, 23. mars, með okkur á sérstökum menningarviðburði- og samtali á milli tveggja finnskra prjónafrömuðra – en þær eru Satu Rämö, rithöfundur, og Lee Esselström, hönnuður og þáttakynnir.
Prjón er tímalaus hefð bæði í Finnlandi og á Íslandi, og í raun lífsnauðsyn á árum áður. Á meðan forfeður okkar prjónuðu hlýjar flíkur, úr takmörkuðum auðlindum, til þess að fleyta sér í gegnum erfiða vetur, lítum við í dag á prjón sem skemmtilegt og skapandi hobbí. En umfram sköpunargleðina, hvaða dýpri menningarlegu þýðingu hefur prjónaiðkun? Hvernig hefur þessi hefð mótað samfélög okkar og getur prjónaiðja jafnvel stuðlað að aukinni vellíðan í okkar hraðskreiða heimi?
Vertu með þegar Satu og Lee kafa ofan í þessar spurningar, og deila innsýn sinni í ríkan prjónaarf norrænu þjóðanna. Þar að auki munum við deila sérgerðri hönnun eftir Lee fyrir viðburðunn – sem þátttakendum er velkomið að prjóna á meðan þeir hlusta á samtalið. Um er að ræða prjónamunstur fyrir hlýja sessu. Þátttakendum er einnig velkomið að koma með sín eigin prjónaverkefni eða einfaldlega hlusta á umræðurnar.
Hvort sem þú ert þaulæfður prjónaiðkandi eða bara forvitin, þá ertu velkomin að taka þátt!