Stórar fréttir! Sónó flytur út og Plantan flytur inn

Frá árinu 2021 hafa Sónó matseljur dansað í takt við árstíðirnar hjá okkur í Norræna húsinu og yljað okkur með með kryddum og jurtum úr nærumhverfinu. Nú hafa matseljurnar ákveðið að flytja sig um set og verður desember mánuður þeirra síðasti hér hjá okkur. Þær eru þó hvergi hættar. Vænta má fregna fyrr en yfir lýkur og þangað til hvetjum alla til að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum. Við mælum með fallega jólaseðlinum sem þær hafa sett saman fyrir desember.

Takk elsku Silla fyrir þína hlýju nærveru og frábæra mat í gegnum árin!

Við erum mjög spennt að greina frá því að þann 1. febrúar 2025 mun kaffihúsið Plantan opna bistró hjá okkur. Plantan bistró verður veitingastaður og veisluþjónusta sem mun bjóða upp á lítinn árstíðarbundin matseðil þar sem áhersla verður lögð á heilnæman og góðan mat, bakkelsi bakað á staðnum og gott kaffi. Allt á boðstólnum verður plöntumiðað og úrvalið mun rúlla aðeins þar sem sköpunargleði og breytileiki árstíða fær að njóta sín.

Eigendur Plöntunar eru þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Bernódus Óli Einarsson og Júlía Sif Liljudóttir. Sum kannast eflaust við þau frá Plantan kaffihús sem staðsett er á Njálsgötu 64.

Við hlökkum mikið til að taka á móti Plantan bistró og bjóðum þau velkomin í Norræna húsið!