Framtíðarsýn okkar: Hvernig er lífið í loftslagsvænu samfélagi?
16:30-18:00
Norræna ráðherranefndin heldur í ár röð viðburða, ásamt ýmsum samstarfsaðilum, víðsvegar um Norðurlönd þar sem áhersla er lögð á framtíðarsýn fyrir loftslagsvæn samfélög. Á viðburðunum eru ungir aðgerðarsinnar, sérfræðingar og valdhafar leidd saman og leitast er við að svara spurningum á borð við: „Hvernig lítur gott og umhverfisvænt líf út í framtíðinni – og hvernig komust við þangað?“. Slík samtöl hafa átt sér stað á Folkemødet í Danmörku, Arendalsuka í Noregi, Almedalsveckan í Svíþjóð, ReGeneration Week á Álandseyjum – og nú í aðdraganda COP29 er komið að Íslandi.
Beint streymi – smellið hér til að horfa.
Grænu umskiptin eru á allra vörum og fá efast um mikilvægi þeirra í heimi sem einkennist af síversnandi afleiðingum loftslagsbreytinga. En þó virðist lítið talað um hvernig samfélög okkar og daglegt líf geti í raun og veru litið út þegar grænu umskiptin hafa verið innleidd og ráðist hefur verið í þær breytingar sem nauðsynlegar eru til at samfélög rúmist innan þolmarka jarðarinnar. Þess í stað hverfist umræðan að miklu leiti um þær fórnir sem við þurfum að færa á vegferðinni í átt að loftslags- og umhverfisvænna lífi; t.d. fækka flugferðum, minnka kjötneyslu og jafnvel flytja í minni húsnæði. Mikil áhersla er einnig lögð á það hvort og hvernig tæknilausnir geti komið í veg fyrir þörfina á slíkum lífsstílsbreytingum og persónulegum fórnum – þó að ljóst sé að tæknilausnir einar og sér munu ekki skila nægum árangri í loftslagsmálum.
Rannsóknir sýna að það er erfitt að knýja fram samfélagslegar breytingar þegar framtíðarsýn er ekki til staðar. Í ljósi þess var skýrslan „Nordic Visions of Climate Neutrality“ gefin út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í fyrra, en í henni er fjallað um hvernig daglegt líf gæti litið út eftir 25 ár og öll þau jákvæðu hliðaráhrif sem loftslagsvæn samfélög gætu haft í för með sér – t.d. heilnæmara umhverfi, meiri frítími, sterkari tenging við náttúruna og nærsamfélög og öflugara lýðræði. Getur verið að lífið verði jafnvel betra – allt eftir því hvernig við skilgreinum „hið góða líf“?
Öllum þingflokkum hefur verið boðið að senda fulltrúa sinn á viðburðinn og þegar hafa Píratar staðfest komu Andrésar Inga Jónssonar.
Dagskrá:
Kynning á skýrslunni „Nordic Visions of Climate Neutrality“ – Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis og auðindafræði við HÍ, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, prófessor við verkfræðideild HR, og Hlynur Stefánsson, prófessor við verkfræðideild HR.
Pallborðsumræður:
– Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra
– Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi við félagfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild HÍ
– Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB
– Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs
Fundarstjóri: Katrín Oddsdóttir
Að málþinginu loknu verður boðið uppá léttar veitingar frá Sónó Matseljum og Grugg & Makk
Lesið skýrsluna „Nordic Visions of Climate Neutrality hér.
Aðgengi að Elissu sal er ágætt fyrir hjólastóla, lágur þröskuldur er inní salinn. Aðgengileg og kynhlutlaus salerni eru á sömu hæð. Viðburðurinn fer fram á íslensku.
Viðburðinum verður streymt og má nálgast link hér að ofan.