The Weather Diaries
The Weather Diaries
The Weather Diaries (þýð. Veðurdagbækurnar) voru til sýnis í Norræna húsinu frá 19. mars til 3. júlí, 2016.
Sýningin er unnin af listakonunum Sarah Cooper & Nina Gorfer, og sýnir áhrif náttúru og veðurfars á listsköpun. Sýningin samanstendur af ljósmyndum og innsetningum sem unnar eru í nánu samstarfi við tólf hönnuði og listamenn frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.
Um sýninguna
Sarah Cooper og Nina Gorfer ferðuðust í tvö ár um Færeyja, Grænland og Ísland. Tilgangur ferðarinnar var að rannsaka þau áhrif sem hefðir og náttúru hafa á sköpun listamanna og hönnuða í löndunum. Cooper & Gorfer starfa ólíkt hefðbundnum mannfræðingum að því leyti að tilgangur þeirra er ekki fyrst og fremst vísindalegur. Þær nota t.d. ekki myndavélar eingöngu til að sýna samfélag og menningu heldur breyta þær athugunum sínum í ljóðrænar sögur sem þær miðla með myndum sínum. Ljósmyndir þeirra eru sviðsettar og þrungnar táknum, segja má að þar séu mörg ólík lög merkingar þar sem litir og áferð gegna veigamiklu hlutverki.
Cooper & Gorfer
Sarah Cooper (f. 1974 í Bandaríkjunum) og Nina Gorfer (f. 1979 í Austurríki) mynda tvíeykið Cooper & Gorfer, en samstarf þeirra hófst árið 2006. Cooper & Gorfer hafa haldið nokkrar einkasýningar m.a. í Hasselblad Center í Gautaborg og Kulturhuset í Stokkohólmi. Þær unnu til Sænsku listabókaverðlaunanna fyrir bæði SEEK Volume 01 Iceland og My Quiet Gold. Nýjasta bókin þeirra, The Weather Diaries (gefin út af Gestalten-forlaginu í Berlin) kom út í mars árið 2014 í tengslum við opnun sýningarinnar í Museum Angewandte Kunst í Frankfurt. www.coopergorfer.com
Sýning á faraldsfæti
The Weather Diaries er framfleidd af Norræna húsinu í Reykjavík og fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Sýningin var fyrst sýnd á Museum Angewandte Kunst í Frankfurt árið 2014 og hefur síðan verið sýnd á Ljósmyndasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn, Norræna húsinu í Færeyjum, CODA safninu í Hollandi og nú í Norræna húsinu í Reykjavík. Á þessu ári mun sýningin opna í Nordic Heritage Museum í Seattle og Danish Cultural Center í hinu vinsæla listahverfi 798 í Peking.
Hönnuðir og listamenn sem taka þátt í sýningunni:
Barbara I Gongini (FO), Bibi Chemnitz (GL), Cooper & Gorfer (US, AT), Guðrun & Guðrun (FO), Hrafnhildur Arnardóttir a.k.a. Shoplifter (IS), Jessie Klemmann (GL), JÖR by Guðmundur Jörundsson (IS), Kría (IS), Mundi (IS), Najannguaq Lennert (GL), Nikolaj Kristensen (GL), and STEiNUNN (IS).
Viðtökur:
Sýningin hefur hlotið frábærar viðtökur bæði safngesta og gagnrýnenda þar sem hún hefur verið sýnd í Evrópu. T.d. gaf gagnrýnandi danska stórblaðsins Politiken sýningunni 5 stjörnur af 6 mögulegum með umsögninni „ein fallegasta sýning sem ég hef séð“.