Opið kall: Krakkaveldi tekur völdin í Norræna Húsinu veturinn 2021 – 2022!
Ert þú með sterkar skoðanir? Ertu með betri hugmyndir en fullorðna fólkið í kringum þig? Finnst þér gaman að leika?
Í vetur verður Krakkaveldi með skapandi vinnusmiðju í Norræna húsinu á fimmtudögum klukkan 15:00 – 17:00. Við ætlum að framkvæma hugmyndir okkar og búa til heim þar sem við ráðum öllu. Við munum hittast á fimmtudögum og nokkra laugardaga í vetur. Ef þig langar að vera með, sendu okkur nokkrar línur um þig og 3 hluti sem þú myndir breyta í heiminum ef þú réðir öllu!
Við ætlum meðal annars að búa til bar þar sem krakkar ráða öllu; Barnabar. Á BarnaBarnum eru öðruvísi peningar, öðruvísi drykkir og allt öðruvísi hegðun. Síðan verður fullorðnum boðið á tilraunakvöld þar sem krakkarnir prófa hugmyndirnar sínar – á fullorðnum!
Leiðbeinendur Krakkaveldis eru Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Hrefna Lind Lárusdóttir sviðslistakonur.
Umsókn og skráning sendist á krakkaveldi@gmail.com
Verkefnið er styrkt af Nordisk Kulturfond og Barnamenningarsjóði Íslands.