Höfundakvöld: Gaute Heivoll
19:30
Höfundakvöld með Gaute Heivoll í Norræna húsinu þriðjudaginn 2. febrúar kl. 19:30.
Sigurður Ólafsson verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku.
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
Norræna húsið streymir frá viðburðinum hér:
Gaute Heivoll (1978) er norskur rithöfundur sem gaf út sína fyrstu bók árið 2002. Heivoll skrifar jafnt skáldsögur, ljóð, smásögur og barnabækur. Árið 2010 kom bók hans Før jeg brenner ned út og vakti samstundis athygli, lesenda jafnt sem gagnrýnenda. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Sigrúnar Árnadóttur árið 2011 undir heitinu Meðan enn er glóð og hlaut höfundurinn Brage-verðlaunin og Sult-verðlaunin fyrir. Í sögunni segir af brennuvargi er gengur laus í Finnlandi í Suður-Noregi. Íbúar lifa í stöðugum ótta og fær héraðslögreglan aðstoð frá lögreglunni í Ósló. Á sama tíma er lítill drengur borinn til skírnar sem hlýtur nafnið Gaute Heivoll, löngu seinna skrifar hann sögu þessara hræðilegu vikna og skoðar atburðina og brennuvarginn út frá sínum persónulega sjónarhóli. Sagan sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda þykir í senn bæði spennusaga sem og þroskasaga og heimildasaga skálds. Meðfram ritstörfum hefur Gaute staðið fyrir námskeiðum í ritlist, jafnt fyrir börn sem fullorðna en eftir hann hafa einnig komið út barnabækur. Kvikmyndaaðlögun barnabókarinnar Himmelen bak huset (2008) vann til verðlauna á alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðinni í Chicago. Nýjasta skáldsaga Heivoll, De fem årstidene kom út árið 2014 og smásagnasafnið Øksa og ishavet útkom síðla árs 2015.
Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Borðapantanir
Höfundakvöld Norræna hússins 2016
2. febrúar – Gaute Heivoll (NO)
1. mars – Åsne Seierstad (NO)
5. apríl – Susanna Alakoski (SE/FI)
3. maí – Mari Jungstedt & Ruben Eliassen (SE/NO)