Norrænar Kvikmyndir í Fókus //Þú sem lifir


19:00

Frímiðar

Norrænar Kvikmyndir í Fókus // Roy Andersson

Dagana 21.-24. febrúar býður Norræna húsið upp á Norræna kvikmyndir í Fókus með Roy Andersson

ÞÚ SEM LIFIR  (DU LEVANDE, 2007)
94 mín/ Enskur texti/ Aðgangur ókeypis

Þú sem lifir er kvikmynd um mannlega tilvist, um athafnir og atferli mannanna, um hugrenningar og áhyggjur mannanna, um drauma mannanna og sorgir mannanna, um gleði mannanna og um óslökkvandi þrá mannanna eftir viðurkenningu og ást.

SÝND Í SAL NORRÆNA HÚSSINS
22. 02. kl. 19:00

23.02. kl. 18:30 

 

ROY ANDERSSON

Sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Roy Andersson er í hópi þekktustu og virtustu kvikmyndaleikstjóra Norður-Evrópu og hefur hlotið lof jafnt gagnrýnenda sem gesta listrænna kvikmyndahúsa fyrir óhefðbundna sýn og frásagnaraðferð. „Kyrralífsfagurfræði“ Andersson einkennist af löngum, kyrrstæðum skotum með gleiðhorni og djúpum fókus og tengist náið kenningu hans um að kvikmyndir geti, rétt eins og aðrar listgreinar, gegnt veigamiklu hlutverki í samfélagi dagsins í dag: Að hvetja til félagslegrar og siðferðislegrar meðvitundar meðal þeirra sem á horfa. Andersson notar kvikmyndir sínar og „fagurfræði kyrralífsins“ til að takast á við ýmsar undirstöðuspurningar, jafnt félagslegar, pólitískar sem heimspekilegar, í samtíma okkar: spurningar sem varða mannlega tilvist, sértæk vandamál nútímamannsins og áfallasögu fyrri alda, sem fylgir okkur eftir. Hann lítur á kvikmyndir sínar sem andsvar við því sem hann kallar „óttann við alvarleikann“ og skort á gagnrýnni skoðun í samfélagi og miðlum dagsins í dag.

Árið 2000 gerði Andersson fyrstu myndina í þrísögu sem hann segir vera úttekt á því hvað það þýðir að vera manneskja. Á frummálinu nefnast þessar myndir Sånger från andra våningen (2000), Du levande (2007) og En duva satt på en gren och funderade på tillvaron (2014). Hvað felst í tilvist mannsins? Myndirnar í þrísögunni eru settar saman úr stuttum en heildstæðum atriðum þar sem varpað er fram spurningum um meðvitund, ábyrgð og arfleifð sögunnar í lífi samtímamannsins. Myndmál Andersson er á stundum langsótt og leitar oft fanga í myndmáli þeirrar sársaukafullu arfleifðar fasisma, nasisma og þjóðernishreinsana sem allir Vesturlandabúar eiga sameiginlega, en þó er það ónotalega kunnuglegt okkur. Frá árinu 2000 og um fimmtán ára skeið voru kvikmyndirnar sem á eftir komu í nokkuð áþekkum stíl, þar sem Andersson leitaðist við að brúa bilið á milli draums og raunveruleika. Þótt viðfangsefni Andersson séu gjarnan býsna þung er yfirbragðið létt og hann bregður af og til fyrir sig farsakenndum og beittum stíl. Hann dregur regluverk, viðmið og stofnanir samfélagsins gjarnan sundur og saman í beittu háði, en sýnir þau sem standa utangarðs eða verja vonlausan málstað í jákvæðara ljósi.

Auðþekkjanlegur stíll Andersson, sem einkennist af löngum skotum, kyrrstæðum myndum, gráum litatónum og eins konar myndrænni kyrrð í bland við afkáralega viðburði, er stíll frumlegs kvikmyndagerðarmanns sem er einstakur í sinni röð. Sjálfur segir Andersson gjarnan að hann kjósi helst „ofurraunsæi“ og kvikmyndar hvert atriði og hvert sett með einni myndavél, frá einu sjónarhorni, til að skapa kyrrstæðar smámyndir, stútfullar af merkingarhlöðnum smáatriðum. Þetta er nálgun sem hann hefur tileinkað sér á ferli sínum sem auglýsingagerðarmaður, en hann á að baki yfir 400 auglýsingar.

Hrífandi og sérstakar kvikmyndir Roys Andersson hafa afar sjaldan verið sýndar á Íslandi og NORRÆNAR KVIKMYNDIR Í FÓKUS, þar sem kvikmyndirnar þrjár í þrísögu hans um „tilvist mannsins“ verða m.a. sýndar, er því sérlega spennandi.

 

Miðasala