Strilaringen – Þjóðdansar frá Noregi
19:00
Miðvikudaginn 30. maí býður Norræna húsið til þjóðdansakvölds þar sem Norski þjóðdansahópurinn Strilingen mun skemmta gestum með tónlist og dansi.
Viðburðurinn hefst kl. 19 og er aðgangur ókeypis og allir velkomnir. Viðburðurinn fer fram á ensku og norsku.
Norski þjóðdansahópurinn Strilaringen kemur frá vesturhluta Noregs eða rétt fyrir norðan Bergen. Hópurinn hefur ferðast í nokkurn tíma um Evrópu og víðar og nú rætist loks draumur þeirra um að koma til Íslands.
Á sýningunni munu meðlimir í Strilaringen sýna hefðbundna norska þjóðdansa með söng og dansi við undirleik fiðluleikara. Fiðluleikararnir munu spila á harðangursfiðlur og útskýra hljóðfærið fyrir gestum. Gestir munu einnig verða kynntir fyrir hinum ýmsu söngvum og hvernig þeir eru túlkaðir.
Dansararnir í Strilaringen koma fram í hefðbundnum norskum þjóðbúningum. Á viðburðinum í Norræna húsinu munu þau útskýra búningana.
Undir lok kvöldsins mun gestum gefast tækifæri á að læra norska þjóðdansa og lofa meðlimir Strilaringen því að dansarnir séu bæði auðveldir og skemmtilegir að dansa.
Á miðvikudögum er Norræna húsið opið til kl. 21:00. Þá er frítt inn á sýningar hússins, bókasafnið og barnabókasafnið bjóða upp á huggulega stemningu fyrir alla fjölskylduna og veitingarstaðurinn Aalto Bistro framreiðir gómsæta rétti.
Strilaringen var stofnaður 1976 í Norður Hordaland með það að markmiði að varðveita norska hefð í þjóðdönsum, tónlist og söngvum. Frá stofnun hefur Strilaringen tekið þátt í hátíðum í Svíþjóð, Þýskalandi, Finnlandi, Skotlandi, Póllandi, Tyrklandi, Ítalíu, Hollandi, Lettlandi, Litháen, Austurríki, Belgíu, Rússlandi, Portúgal, Bandaríkjunum, Írlandi og Danmörku. Strilangen hefur einnig haldið alþjóðlegar danshátíð í Norður Hordalandi þar sem þáttakendur hafa komið víða að.