Bækur byggja brýr milli fólks og staða, bæði raunverulegra og ímyndaðra. Barnabókaflóðið var sett upp í Norræna húsinu í tilefni af 50 ára afmæli hússins 2018. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, rithöfundur og teiknari, var hugmyndasmiður og listrænn stjórnandi sýningarinnar. Börnum var boðið í ævintýraleiðangur um heima barnabókmenntanna og sýningin sló aðsóknarmet. Haldnar voru listasmiðjur á vegum Norræna hússins og List fyrir alla og nokkur hundruð börn á Vestfjörðum fengu líka að taka þátt þegar Barnabókaflóðið fór á flakk.
Barnabókaflóðið lagði síðan af stað í leiðangur út fyrir landsteinana til Eystrasaltslandanna þriggja. Sýningin opnaði í Þjóðarbókhlöðunni í Riga í Lettlandi í september 2020 undir heitinu: The Book Flood – North Meets Baltics in Children’s Books. Sú sýning hefur nú verið tilnefnd til virtra hönnunarverðlauna þar í landi – og verða niðurstöður ljósar 28. maí næstkomandi.