Raddir þolenda: Konur ræða kynferðisbrot


20:00

Raddir þolenda: Konur ræða kynferðisbrot

Málþing í Norræna húsinu miðvikudaginn 25. október kl. 20

 

Dagskrá:

Júlía Birgisdóttir, baráttukona og gjaldkeri Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi, heldur erindi um stafrænt kynferðisofbeldi.

Kristín I. Pálsdóttir formaður Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, talar um rannsókn á kynferðisofbeldi og áreiti gegn konum á meðferðarstofnunum.

Saga Garðarsdóttir leikkona verður með erindi.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir, kynjafræðingur og kynsegin baráttukona, fjallar um kynferðisofbeldi frá sjónarhorni samtvinnunar og jaðarhópa.

Anna Katrín Snorradóttir, baráttukona #höfumhátt: Af hverju hafði ég hátt?

Fundarstjóri: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata.

 

Raddir þolenda hafa verið þaggaðar niður í íslensku samfélagi sem og heiminum öllum. Þögnin hefur þó verið rofin eins og sjá má á hverri vitundarvakningunni á fætur annarri. Áratuga löng kvennabarátta hefur byggt grunn að samfélagi sem er loksins að opnast fyrir því að hlusta á reynsluheim kvenna.

Fall ríkisstjórnarinnar sýnir að samfélagið þolir ekki lengur þöggun yfirvalda vegna kynferðisbrota.

Með tilkomu hverrar samfélagsmiðlaherferðarinnar á fætur annarri og öðrum herferðum eins og Druslugöngunni er viðhorf gagnvart konum og þolendum kynferðisofbeldis að breytast smátt og smátt. Má þar nefna myllumerkjaherferðirnar #6dagsleikinn #freethenipple #höfumhátt og nú síðast #metoo sem hafa haft gríðarleg áhrif á samfélagsumræðuna og valdeflt þolendur til þess að segja sína sögu.

Pírötum finnst mikilvægt að hlusta á raddir þolenda til þess að fá viðhorf þeirra til kerfis sem á að standa með þeim þegar brot eru tilkynnt en hefur brugðist mörgum fram að þessu. Við viljum átta okkur betur á umfangi vandans og eiga samtal um kynferðisbrot og upplifanir þolenda. Við erum tilbúin til að hlusta og við viljum grípa til frekar aðgerða. Þess vegna höfum við boðið nokkrum baráttukonum á opinn fund í Norræna húsinu á fimmtudaginn í næstu viku, til þess að ræða sína reynslu, sín viðhorf og sínar hugmyndir um úrbætur við meðferð kynferðisbrota á Íslandi.

 

Húsið opnar klukkan 19.30 og eru allir velkomnir, léttar veitingar verða í boði eftir fundinn

Facebook-viðburður: