15:15 Tónleikasyrpan – Jónas Tómasson


15:15

Jónas Tómasson – Portrett með Ton de Leeuw

Sunnudaginn 30. október kl. 15:15 mun Caput-hópurinn flytja tónlist Jónasar Tómassonar í 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu.

Hópurinn hefur undanfarin ár staðið að afar vinsælum portrett-tónleikum íslenskra tónskálda í samvinnu við 15:15. Á tónskáldunum hvílir sú kvöð að velja „meistarverk“ úr smiðju klassískra tónskáda 20. aldar. Jónas valdi Riversed Night fyrir einleiksflautu eftir Ton de Leeuw (1926 – 1996) sem var eitt áhrifaríkasta tónskáld Hollendina á síðustu öld og lærimeistari Jónasar og fleiri íslenskra tónskálda. Kornungur flautuleikari, Björg Brjánsdóttir, sem stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Osló mun flytja verkið.

Jónas er fæddur árið 1946 og er því sjötugur á þessu ári en fyrir okkur í Caput er hann síungur og ferskur, kemur reyndar á óvart með hverju verki.

Efnisskrá tónleikanna:

Jónas: Í Tóneyjahafi fyrir bassaflautu, klarinettu, bassaklarinettu og horn

Jónas: Ballett VI – átta hægir dansar fyrir Láru fyrir fjóra blásara, víólu og kontrabassa

Ton de Leeuw: Reversed Night fyrir einleiksflautu

Jónas: 6 myndir – ósýnilegar fyrir blásarakvintett

 

Jónas Tómasson stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík, m.a. hjá þeim Jóni Þórarinssyni og Þorkatli Sigurbjörnssyni, en hélt síðan til framhaldsnáms í Amsterdam þar sem hann sótti tíma hjá  Ton de Leeuw, Léon Orthel og Jos Kunst árin 1969-1972. Á þessum umbrotatímum hafði Amsterdam mikið aðdráttarafl fyrir unga listamenn frá öllum heimshornum, m.a. var þar miðstöð nokkurra framsækinna myndlistarmanna sem stofnuðu SÚM-hópinn. Jónas varð fljótt virkur SÚM-ari og konseptlistin, sem hópurinn aðhylltist, hafði mikil áhrif á list hans.

Jónas fluttist til Íslands árið 1973 og settist að á Ísafirði, þar sem hann hefur að mestu dvalið síðan. Þar hefur hann látið að sér kveða á ýmsum sviðum tónlistarlífsins, m.a. sem kennari í tónfræðigreinum og flautuleik, sem flautuleikari og kórstjóri og um áratuga skeið hefur hann haft umsjón með  tónleikahaldi  fyrir Tónlistarfélag Ísafjarðar.  Tónsmíðarnar hafa þó ævinlega átt hug hans allan og síðustu árin hefur hann helgað sig þeim eingöngu.

Jónas er afar mikilvirkt tónskáld og eftir hann liggur fjöldi verka af ólíkum toga. Hann hefur samið fjölmörg hljómsveitarverk og á síðustu árum hefur hann m.a. samið átta Sinfóníettur þar sem hann kannar hljóðheim sinfóníuhljómsveitarinnar með mismunandi hljóðfæraskipan. Eftir hann liggja einnig nokkrir konsertar, m.a. fyrir orgel, víólu, píanó, tvö píanó og sinfóníuhljómsveit. Kórverk, ekki síst kirkjuleg, skipa stóran sess í tónverkasafni Jónasar, má þar nefna Missa Tibi Laus, Lúkasaróratóría, Missa brevis og Söngvar til jarðarinnar. Þá hefur hann samið fjöldann allan af kammerverkum fyrir ólíkar og oft frumlegar samsetningar hljóðfæra. Loks hefur Jónas samið fjölda einleiks- og einsöngsverka fyrir ýmis hljóðfæri oft að beiðni einstakra tónlistarmanna.

Verk Jónasar hafa verið flutt af mörgum fremstu tónlistarmönnum hér á landi, t.d.  hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands margsinnis flutt sinfónísk verk hans og konserta. Kammersveit Reykjavíkur, Caput-tónlistarhópurinn, kammerhópurinn Ýmir, Mótettukór Hallgrímskirkju, og fjölmargir aðrir minni tónlistarhópar hafa haft verk hans á efnisskránni og flutt þau víða um heim.

Upptökur hafa verið gerðar af fjölda verka Jónasar og mörg þeirra einnig komið út á geisladiskum. Íslensk tónverkamiðstöð gaf út Portrettdisk með tónlist hans og geisladiskurinn Dýrð Krists inniheldur samnefnt verk Jónasar fyrir orgel.

Jónas hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun listamanna og árið 2000 var hann útnefndur fyrsti bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.

Miðaverð á tónleikana er 2000 kr. en 1000 fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.

Miðasala er á tix.is og við innganginn.