Norræna húsið í Reykjavík óskar eftir að ráða verkefnisstjóra með áherslu á samfélag og sjálfbærni, menningu og listir

Norræna húsið í Reykjavík tók til starfa árið 1968 en húsið teiknaði finnski arkitektinn Alvar Aalto. Fjölbreytt menningarstarfsemi fer fram í Norræna húsinu, t.d. sýningar af ýmsu tagi, rekstur bókasafns, hljómleikar og sviðslist. Auk þess tekur húsið virkan þátt í norrænni þjóðfélagsumræðu með málþingum og ráðstefnum. Norræna húsið starfrækir skrifstofu umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og kemur með norrænt sjónarhorn í landsmálaumræðuna með miðlunarverkefninu Norðurlönd í fókus.

Við auglýsum eftir reyndum verkefnisstjóra til þess að hafa umsjón með verkefnum Norðurlanda í fókus og umsýslu með umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs.  Þá sér verkefnisstjórinn um undirbúning ýmissa lista- og menningarverkefna í Norræna húsinu. Vinnustaðurinn er Norræna húsið í Reykjavík en starfið er unnið í nánu samráði við samskiptasvið og deild umhverfis- og loftslagsmála á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

Kröfur sem þú þarft að uppfylla:

  • Tilhlýðileg háskólamenntun.
  • Reynsla af samskiptastarfi, einkum pólitískum samskiptum.
  • Þekking á umhverfis- og sjálfbærnimálum.
  • Reynsla af stjórnsýslustörfum, helst í alþjóðlegum samskiptum og reynsla af stjórnun stærri verkefna.
  • Góð kunnátta í íslensku auk ensku og einu skandinavísku málanna.

Auk þess ertu:  

  • Áhugasöm/samur um að fjalla um samfélagsmál sem eru í deiglunni með menningu og listum.
  • Lipur í samskiptum og lausnamiðuð/aður.
  • Skipulögð/lagður og getur unnið sjálfstætt.

Um er að ræða fullt starf í fjögur ár með möguleika á framlengingu í fjögur ár til viðbótar samkvæmt reglum Norrænu ráðherranefndarinnar. Upplýsingar um Norræna húsið er að finna á vefsíðunni www.norraenahusid.is.

Nánari upplýsingar veitir Þórunn Stefánsdóttir fjármálastjóri á netfanginu thorunnst@nordichouse.is eða í síma +354 551 7030.

Hægt er að sækja um starfið á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar www.norden.org (Störf)  eigi síðar en 15. júlí 2019.