The Sagas in Comics: Valhalla and Vinland Saga


20-22

Valhalla og Vinland Saga: Kvölddagskrá um norrænar miðaldabókmenntir og nýlegar teiknimyndasögur. Gestir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan.

Viðburðurinn fer fram á ensku og er öllum opinn.

Dagskráin er hluti af Manga-hátíð í Reykjavík sem Borgarbókasafnið, Norræna húsið og námsgrein í japönsku við Háskóla Íslands standa að ásamt fleiri aðilum.

 

Norrænar miðaldabókmenntir hafa á liðnum áratugum veitt teiknimyndasagnahöfundum víða um heim innblástur. Teiknimyndasería bandaríska Marvel-fyrirtækisins er þekktasta afurðin á þessum vettvangi en eitt metnaðarfyllsta verkefnið af þessu tagi er röð danskra teiknimyndasagna sem út komu á árunum 1979 til 2009 undir heitinu Valhalla. Serían er oft kennd við teiknarann Peter Madsen en frumkvöðull að þróun hennar og einn handritshöfunda var Henning Kure (f. 1953), sem var á sínum tíma ritstjóri hjá danska útgáfufyrirtækinu Interpresse og sérfræðingur um norræna goðafræði. Auk bókanna 15 sem komu út í Valhalla-seríunni framleiddi sami hópur vinsæla teiknimynd árið 1986.

Á seinni árum er viðamesta teiknimyndasagan sem sækir innblástur í fornritin verið manga-serían Vinland Saga sem teiknarinn og handritshöfundurinn Makoto Yukimura (f. 1976) hóf að gefa út hjá japanska útgáfufyrirtækinu Kodansha árið 2005. Fyrsta hálfa árið kom sagan út vikulega í teiknimyndasagnatímaritinu Shōnen en síðan þá hefur hver nýr kafli sögunnar birst mánaðarlega í öðru tímariti. Reglulega hefur nokkrum köflum verið safnað saman í innbundnum kiljum sem nú eru orðnar 20 talsins en einnig hefur meirihluti verksins birst í enskri þýðingu. Fyrr á þessu ári var tilkynnt að teiknimynd byggð á sögunum sé í burðarliðnum.

Heimsókn þeirra Kure og Yukimura er hluti af Manga-hátíð í Reykjavík en aðrir viðburðir á henni er málþing um manga-teiknimyndasögur sem fram fer í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur síðdegis 16. ágúst og manga-maraþon sem fram fer í Borgarbóksafninu 18. ágúst. Heimsóknin tengist einnig, með óbeinum hætti, Alþjóðlegu sagnaþingi sem fram fer í Reykjavík 12. til 17. ágúst. Dagskráin í Norræna húsinu er ætluð öllu áhugafólki um fornrit og teiknimyndasögur.

Valhalla/Peter Madsen 

Brot úr kvikmyndinni