Þekking sem nýtist: tillögur um eflt norrænt samstarf á sviði félagsmála


12:00 - 13:30

Í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu Árna Páls Árnasonar um norræna velferð, efna Norðurlöndin í fókus  til opins fundar í Norræna húsinu, 18. október kl. 12-13:30 til að ræða norræna velferð til framtíðar og tillögur að efldu samstarfi.

Síðastliðið sumar tilkynnti Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, að hann hefði fengið Árna Pál Árnason, fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra, til að vinna stefnumótandi úttekt á samstarfi Norðurlandanna á sviði félagsmála.

Úttektinni var ætlað að greina þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir á sviði velferðarmála og hvernig hægt sé að nýta norrænt samstarf til að mæta þeim.

Árni Páll Árnason mun afhenda Annika Strandhäll, félagsmálaráðherra Svíþjóðar, skýrsluna 16. október nk. í Stokkhólmi.  Af því tilefni mun Árni Páll einnig kynna skýrsluna sérstaklega á Íslandi þann 18. október kl. 12 í Norræna húsinu. Farið verður yfir helstu niðurstöður skýrslunnar, sem ber heitið: Þekking sem nýtist: tillögur um eflt norrænt samstarf á sviði félagsmála. Hverjar verða helstu áskoranir í velferðarþjónustu á næstu árum? Er til eitthvað sem heitir Norrænt velferðarmódel? Hvar stendur Ísland í norrænum samanburði?

Úttektin er sú sjötta sem unnin er í norrænu samstarfi. Thorvald Stoltenberg reið á vaðið með svonefndri Stoltenbergskýrslu um sóknarfæri í norrænu samstarfi á sviði varnar- og öryggismála. Nú síðast hafa Bo Könberg, fv. heilbrigðisráðherra Svíþjóðar gert stefnumótandi úttekt á samstarfi um heilbrigðismál, Poul Nielson, fv. vinnumálaráðherra í Danmörku á vinnumálasamstarfinu, Tine Sundtoft, fv. umhverfisráðherra Noregs á umhverfissamstarfi og Jorma Ollila, fv. forstjóri Nokia á samstarfi í orkumálum.

Að loknu erindi Árna Páls taka við pallborðsumræður um úttektina og málaflokkinn. Þátttakendur í pallborðsumræðum verða, auk Árna Páls: Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands og Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og fyrrum félags- og jafnréttismálaráðherra.

Fundarstjóri er Bogi Ágústsson fréttamaður og formaður Norræna félagsins.

Fundurinn fer fram í sal Norræna hússins 18. október kl. 12-13:30.

Fundurinn er öllum opinn og fer fram á íslensku.