Kristi Furubotn rithöfundur les úr „Maria Mi“

Kristi Furubotn verður gestur í Bókasafni Norræna hússins og les úr unglingabók sinni ”Maria Mi” sem kom út árið 2015.  Hún býr í Stavanger og starfar þar sem rithöfundur, tónlistarmaður og svæfingahjúkrunarfræðingur.  Hún hefur gefið út fimm bækur, þrjár skáldsögur, smásagnasafn og eina barnabók.  Hún skrifar bæði á norsku og nýnorsku og lesendahópur hennar eru fullorðnir, eldri borgarar og börn.  Upplesturinn á ”Maria Mi” verður á nýnorsku og eru allir velkomnir.

Um söguna:  Maria (16) býr í Stavanger og er yfir sig ástfangin af Johannesi.  Tilfinningarnar eru því miður ekki gagnkvæmar.  Þrátt fyrir það er Maria hörð á því að þau séu kærustupar,  að englarnir eða guð eða bara hver sem er hafi ákveðið það.  Hún er tilbúin að fórna bæði líkama og sál til að fá að vera með honum.  Mamma hennar er trúboðabarn, alin upp á Madagaskar og besta vinkonan Mina sækir fríkirkju.

Skáldsagan um Mariu fjallar um sjálfsmat og heiðarleika, líkamsímynd og sjálfsvirðingu.