Wagnerisminn í Frakklandi


14:00

Wagnerisminn í Frakklandi

Fyrirlestur Egils Arnarsonar 26. nóvember í Norræna húsinu kl. 14

Hvað var það einkum í tónverkum Wagners sem hreif svo marga listamenn í Frakklandi á seinni hluta 19. aldar og fram yfir aldamót? Hvernig birtast áhrif hans í tónsmíðum þessa tíma? Og hvers vegna vöktu þau áhrif svo miklar deilur?

Þetta eru þær meginspurningar sem leitað verður svara við í þessu erindi. Að því loknu verður sýnd óperan Aríana og Bláskeggur (1907) eftir Paul Dukas en hann er einkum þekktur fyrir hljómsveitarverk sitt Lærisveinn galdrameistarans. Fáar franskar óperur sækja jafnmikið í tónmál Wagners en einnig Richards Strauss og Debussy. Í óperunni, sem byggist á samnefndu leikverki symbolistans Maurice Maeterlinck, er spurt áleitinna spurninga um mörk frelsis og ánauðar, frelsunarviðleitni og messíasarduldar, tryggðar og Stokkhólmsheilkennis. Sýnd verður nýleg uppfærsla frá Liceu-óperunni í Barcelona. Sýningartími: 2 klst.

Egill Arnarson er M.A. í heimspeki, sögu og latínu frá háskólanum í Kiel. Hann starfar sem ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni.