Sigurðar Nordals fyrirlestur


17:00

Sigurðar Nordals fyrirlestur

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands flytur opinberan fyrirlestur í Norræna húsinu, fimmtudaginn 14. september nk. kl. 17.00, á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals. Fyrirlesturinn nefnist: „Gleymska og geymd á stafrænum tímum.“

Aldrei fyrr hefur manneskjan getað geymt annað eins magn af upplýsingum sem fer jafn lítið fyrir. Hillumetrar af bókum og skjölum, bréfum og myndum, sem fylla jafnan geymslur og íbúðir eldri kynslóða rúmast nú á nokkrum millimetrum. Fjölskylduarkívan, sem æviskrifarar hafa stuðst við í gegnum aldirnar til að skrifa sína sögu eða fjölskyldu sinnar, hefur því aldrei verið jafn uppfull af heimildum um fortíðina, því stafræn tækni getur munað allt, henni er ekki ætlað að gleyma. En um leið hafa orðið gríðarlegar breytingar á samsetningu arkívunnar, bréfaskriftir hafa meira og minna lagst af og samfélagsmiðlar tekið við sem helsta samskiptaleiðin. Ljósmyndir eru geymdar í skýjunum, þeim er deilt um víða veröld, en fjölskyldualbúmin eru löngu horfin á braut. Þá er allsendis óljóst hvernig og hvort okkar stafrænu spor erfast og því vaknar spurningin hvað gleymist og hvað geymist á okkar stafrænu tímum.

Gunnþórunn lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði og þýsku frá Háskóla Íslands 1992. Lauk MA prófi 1994 í evrópskum samanburðarbókmenntum við University of Kent í Kantaraborg. Lagði stund á doktorsnám í samanburðarbókmenntum við frönskudeild Royal Holloway University of London og varði doktorsritgerð sína frá University of London í janúar árið 2000. Ritgerðin var gefin út af Rodopi forlaginu 2003. Gunnþórunn var ráðin lektor við Háskólann 2007 og er prófessor við skólann síðan 2014. Hún er nú forseti Íslensku- og menningardeildar. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að minni og minningum í sjálfsævisögum. Á síðasta ári kom út bók hennar, Representations of Forgetting in Life Writing and Fiction, hjá Palgrave Macmillan útgáfunni í London.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Allir eru velkomnir.