Höfundakvöld með JOHN AJVIDE LINDQVIST


19:30

Höfundakvöld með JOHN AJVIDE LINDQVIST

Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins rithöfundurinn John Ajvide Lindqvist. Viðburðurinn byrjar kl. 19:30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Tinna Ásgeirsdóttir stýrir umræðu sem fer fram á sænsku.  Aðgangur er ókeypis.
Streymi

 

JOHN AJVIDE LINDQVIST (f. 1968) er sænskur rithöfundur, þekktur fyrir hryllingssögur sínar. Fyrsta bók hans Låt den rätte komma in eða Hleyptu þeim rétta inn kom út árið 2004.  Sagan gerist í úthverfi Stokkhólms og fjallar um Óskar, einmana drengs sem verður fyrir miklu einelti í skóla. Um vináttu hans og stúlkunnar Eli sem reynist ekki öll þar sem hún er séð, svo vægt sé til orða tekið. Bókin hefur verið þýdd á meira en þrjátíu tungumál og kvikmynd með sama nafni var gerð árið 2008 í leikstjórn Tomas Alfredson. Leikgerð var einnig unnin upp úr bókinni sem farið hefur sigurför um heiminn og meðal annars verið sett upp, við miklar vinsældir, í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann’s Warehouse í New York og á Norðurlöndunum. Í mars 2016 var leikritið sett upp í Þjóðleikhúsinu.  John Ajvide Lindqvist hefur skrifað fleiri skáldsögur sem flestar hverjar má skilgreina sem hryllings- og/eða spennusögur ásamt því að skrifa sjónvarps- og kvikmyndahandrit. Nýjasta skáldsaga hans Rörelsen, den andra platsen (2015) færði höfundinum tilnefningu til Augustverðlaunanna sama ár. Í bókinni skoðar höfundurinn mörkin á milli þess sanna og ósanna, þess raunverulega og þess yfirnáttúrulega.

Heimasíða

AALTO Bistro

Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Borðapantanir