Endurunnið jólaskraut – Vinnusmiðja


13-15

Vinnusmiðja í endurunnu jólaskrauti verður haldin í Norræna húsinu laugardaginn 9. desember kl. 13-15.

Vinnustofan fer fram á íslensku. Þátttaka er ókeypis og boðið er upp á  jólaglögg og tónlist.

Umsjónaraðili vinnusmiðjunnar er listakonan Sæunn Þorsteinsdóttir. Á smiðjunni sýnir hún þrjár mismunandi tegundir af einföldu og fallegu jólaskrauti úr endurunnu efni.

Sæunn Þorsteinsdóttir er söngelsk myndlistakona, húsfreyja með kennaramenntun, uppalin í sveit en hefur búið í ýmsum borgum og bæjum, og svo er hún ýmislegt fleira.
Hún hefur lengi haft áhuga á pappír. Að búa eitthvað til úr pappír, búa til pappír, mála á pappír, klippa, líma, sauma og brjóta pappír.
Sæunn hefur lengi málað myndir og mynstur á pappír og tré, en undanfarin ár hefur hún gert ýmsar tilraunir með að brjóta saman pappír í alls konar mynstur og form, gert lágmyndir, óróa og skartgripi úr pappír. Pappírinn sem hún notar er oft gamall, notaður pappír og þannig má segja að hún sameini myndlist og endurnýtingu.
Á heimasíðu Sæunnar, www.saeunn.is, má sjá myndir af verkum hennar.

Um verksjoppuna:
Það er mikið af pappír í umferð. Allt of mikið af pappír er bara notaður einu sinni áður en hann er sendur í endurvinnslu, eða honum hent í ruslið. Í jólasmiðju ætlum við að eiga góða stund saman og nota notaðan pappír í jólaskraut. Bækur, bæklingar, nótnablöð, tímarit, póstkort, jólakort, landakort skipta um form og verða jólahjörtu. Sæunn Þorsteinsdóttir myndlistakona leiðbeinir þáttakendum við að búa til þrenns konar hjartalaga jólaskraut úr pappír.

Norræna húsið býður upp á efni til að föndra úr en þér er velkomið að taka með að heiman t.d gamlar bækur, kort og tímarit.

Verið velkomin í norræna og umhverfisvæna jólastemningu!

   

Hér má sjá jóladagskrána Norræna hússins 1/12 – 20/12 í heild sinni.